*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 16. nóvember 2016 12:49

Íslandsmet í prósentutollum

Allir tollar á iðnaðarvörur í 73 köflum tollskrárinnar falla niður um áramótin, en 76% tollur á franskar kartöflur á áfram Íslandsmetið.

Ritstjórn
epa

Stór áfangi í niðurfellingu tolla á innfluttum vörum næst um áramótin, en þá falla niður allir tollar á iðnaðarvörur í köflum 25 til 97 í  tollskránni. Félag atvinnurekenda segir í fréttatilkynningu að ætla megi að sú niðurfelling tolla nemi um tveimur milljörðum króna.

„Um áramótin munu sumir matartollar hins vegar hækka. Þannig fer magntollur á osti úr 430 krónum í 715 krónur á kíló,“ segir í tilkynningunni.

Um áramótin fellur niður 59% tollur á kartöflusnakk

„Tollarnir sem verða aflagðir um áramótin eru oftast á bilinu 5 til 10 prósent. Dæmi um vörur sem í mörgum tilvikum hafa borið tolla við innflutning til landsins en verða tollfrjálsar um áramót, eru sjónvörp og hljómtæki, leikföng og spil, skíða-, golf- og stangveiðibúnaður, húsgögn, gasgrill, barnavagnar og snyrtivörur.

Rétt er að ítreka að mikið af þessum vörum er nú flutt inn án nokkurra tolla samkvæmt fríverslunarsamningum og þess vegna getur verið snúið fyrir neytendur að átta sig á því hvaða vörur nákvæmlega eiga að lækka í verði. Félag atvinnurekenda hvetur aðildarfyrirtækin til að skila tollalækkuninni að fullu til neytenda.

Um áramótin fellur niður hinn illræmdi 59% tollur á kartöflusnakk. Tollurinn á franskar kartöflur á áfram Íslandsmetið meðal prósentutolla, hann er 76%.“