Íslenska innrásin á Bretlandsmarkað mun ekki linna segir sérfræðingur í Manchester í frétt Manchester Evening News.

Matt Fleetwood, einn eiganda lögfræðistofunnar Heatons Solicitors, hefur starfað sem ráðgjafi fyrir Baug í nokkrum yfirtökum fyrirtækisins, og þekkir því vel til, segir íslendingana hungra í frekari fjárfestingar í Bretlandi.

Breskir fjármálasérfræðingar segja að, ásamt því að Íslendingar muni fjárfesta í verslunarfyrirtækjum, muni þeir einnig leggja fjármagn í bæði fjölmiðlun og bankageirann.

Bretar hafa horft upp á Baug kaupa fyrirtæki eins og Hamleys, Goldsmiths, Mappin & Webb og Oasis. Þeir hafa horft á bæði Landsbankann kaupa Teather & Greenwood og Kaupþing Banka kaupa Singer & Friedlander.

Og að undanförnu hefur FL Group verið að auka hlut sinn í easyJet. Hefur flugfélagið brugðið á það ráð að ráða fjárfestingarbankann Goldman Sachs til þess að aðstoða sig við að ráða bug á hugsanlegri yfirtöku.

Íslendingar eru fullir sjálfsöryggis og trúa því þeir geti ráðið yfir öllum heiminum, segir Matt Fleetwood í viðtalinu.