Ástralir eru hamingjusamasta iðnþjóðin samkvæmt úttekt OECD. Þetta er þriðja árið í röð sem Ástralir verma efsta sætið á listanum, en Íslendingar teljast níunda hamingjusamasta iðnþjóðin. Í öðru sæti á eftir Áströlum eru Svíar og svo eru Kanadamenn í þriðja sæti.

Stærsta ástæðan fyrir því að Ástralir teljast hamingjusamir samkvæmt frétt Wall Street Journal snýr að efnahagsástandinu í landinu. Ástralía slapp að mestu við afleiðingar hrunsins 2008 og samfelldur hagvöxtur hefur mælst þar í landi undanfarin 21 ár. Atvinnuleysi mælist nú 5,5%, samanborið við 12,1% atvinnuleysi á evrusvæðinu.

Saul Eslake, hagfræðingur hjá Bank of America-Merrill Lynch í Sydney bendir á að enginn undir 40 ára aldri hafi upplifað kreppu í Ástralíu eftir að hann fór að taka þátt í atvinnulífinu.