„Þetta hefur farið mjög vel af stað," segir Lárus Gunnar Jónasson, annar eigandi veitingahússins Fiskfélagið við Vesturgötu í Reykjavík sem var opnað 13. júní. Flestir gestanna eru Íslendingar en einnig erlendir ferðamenn.

„Það eru allir heima þetta árið. Það kemst enginn út," segir hann og bætir við. „Markmiðið er að láta gestunum líða vel; þetta á að vera kósí og skemmtilegt." Meðeigandi hans er Guðmundur Hansson, fyrrverandi eigandi Lækjarbrekku.

Lárus er matreiðslumaður og eflaust mörgum kunnur í þessum geira. Hann stofnaði meðal annars veitingastaðinn Sjávarkjallarann árið 2003, sem hann hefur nú selt, og um tíma var hann með veitinga- og skemmtistaðinn Thorvaldsen á sínum snærum.

Lárus segist hafa dvalið á Ítalíu undanfarið ár til að kynna sér ítalska matreiðslu. Hann hafi jafnframt notað tímann til að undirbúa nýja veitingastaðinn. „Við notum íslenskt grunnhráefni en sækjum kryddið utan úr heimi," segir hann. Einn rétturinn er til dæmis fersk skata, bragðbætt með sítrónugrasi, kókósmjólk og chillí.

„Okkar stefna er að vera með lægsta verðið í þessum klassa og besta hráefnið sem völ er á. Hráefnið er orðið mjög dýrt en við gætum ekki haldið verðinu lágu nema með hjálp okkar birgja," segir hann og bætir því við að íslenskt hráefni sé það besta í heimi.

Nánar er rætt við Lárus Gunnar Jónasson í Viðskiptablaðinu.