Fatahönnunarfélag Íslands stóð fyrir sýningu í Hafnarhúsinu um helgina undir nafninu SHOWROOM REYKJAVIK.

Ásta Guðmundsdóttir, einn stjórnarmanna Hönnunarfélags Íslands, segir fyrirmyndina að sýningunni vera erlendar sölusýningar sem fataframleiðendur taka þátt í til að koma vörum sínum á markað.

,,Það hefur staðið lengi yfir að halda svona sýningu hér á landi en þetta er fyrsta sýning sinnar tegundar sem fatahönnuðir standa fyrir,” segir Ásta.

Hún segir helsta markmið sýningarinnar hafi verið að sýna innkaupafólki verslana, fjölmiðlum og almenningi hversu mikil gerjun væri í faginu og jafnframt hvað breiddin þar væri orðin mikil.

Sýningin um helgina var forsmekkurinn að því sem koma skal. Fatahönnuðafélag Íslands hyggst setja á fót sérstaka tískudaga að erlendri fyrirmynd þar sem m.a. erlendum innkaupaaðilum og fjölmiðlum verður boðið.

,,Við erum með stærri áætlanir í huga og þessi sýning var hugsuð sem fyrsta skrefið. Í raun erum við að reyna að búa til hefð fyrir svona tískuviku eins og tíðkast í ýmsum stórborgum erlendis. Við stefnum að því að setja þannig sýningu upp á næsta ári, væntanlega um vorið.”

Rúmlega 20 hönnuðir og fyrirtæki tóku þátt í sýningunni. Ásta segir þau mislangt á veg komin en helmingur þeirra selja stóran hluta framleiðslu sinnar á erlenda markaði. Hluti þeirra framleiði vörur sínar einnig erlendis á meðan aðrir framleiði þær innanlands.

Íslenskir hönnun hefur vakið athygli undanfarin ár og Ásta segist verða vör við mikinn áhuga bæði innlendra og erlendra aðila.

,,Það var nú eitt markmiða okkar í tengslum við þessa sýningu, að vekja meiri athygli á okkur og upplýsa fólk almennt um hvað væri að gerast í íslenskri hönnun. Mér finnst umfjöllun almennt hafa verið góð í fjölmiðlum hérlendis og svona sýning er bara liður í að hafa hana enn betri,” segir Ásta.