NASDAQ OMX Group tilkynnti í dag um nýjar viðbætur við NASDAQ OMX Portfolio Manager hugbúnaðinn (QFolio), eða NASDAQ OMX Sjóðsstjórann, sem hleypt var af stokkunum í október 2009.

Í tilkynningu frá Kauphöllinni kemur fram að nú hefur fjórum norrænum hlutabréfamörkuðum verið bætt við hugbúnaðinn (Stokkhólmi, Helsinki, Kaupmannahöfn og Íslandi) sem og myntbreyti fyrir eftirfarandi gjaldmiðla: bandaríska dollara, evrur og sænskar, danskar og íslenskar krónur.

„NASDAQ OMX Sjóðsstjórinn í iPhone eða iPod með snertiskjám gerir fjárfestum kleift að búa til vaktlista eða ítarlegri eignasöfn úr norrænum og bandarískum hlutabréfum,“ segir í tilkynningunni en einnig geta þeir fylgst með markaðsverði í rauntíma og geta náð í uppfærð gröf.

„NASDAQ OMX var fyrst kauphalla til að bjóða upp á iPhone hugbúnað fyrir bandarísk hlutabréf og nú fá fjárfestar einnig aðgang að markaðsupplýsingum um norræn hlutabréf, þar á meðal íslensk - og það í mynt hvers lands fyrir sig.”, segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar í tilkynningunni.

„Það er mikilvægt fyrir okkar markað að tryggja sem best aðgengi fjárfesta að upplýsingum um íslensk hlutabréf núna og framvegis. NASDAQ OMX Sjóðsstjórinn er liður í þeirri sýn”.