Fyrirtækið Puppit ehf var stofnað á dögunum með þann tilgang að þróa og framleiða þrívíddarteiknimyndir. Stofnendur fyrirtækisins hafa allir talsverða reynslu af teiknimyndagerð og hafa unnið við kennslu, bæði í Margmiðlunarskólanum og í Danmörku.

Meðal þess sem fyrirtækið tekur sér fyrir hendur er að vinna þrívíddarmyndir fyrir hótel, en þeir teikna þá myndir af herbergjunum sem oft eru notaðar við markaðssetningu hótelanna.

Þá vinnur Puppit nú í því að framleiða 3D teiknimyndaseríu sem ber nafnið „Lichtenschwein“, sem fjallar um hina moldríku Lobster fjölskyldu sem hugsar einungis um veraldleg gæði og ekkert annað. Áformað er að byrja á því að gefa út 26 sjö mínútna þætti og verður hugmyndin kynnt á risaráðstefnu í Toulouse, Frakklandi, sem ber nafnið „Cartoon Forum“ og fer fram í september. Á ráðstefnunni mæta margir helstu framleiðendur Evrópu og hafa fjölmargar teiknimyndaseríur og kvikmyndir verið fjármagnaðar í kjölfar þessa stóra viðburðar.

„Þarna eru annars vegar þessi hópur sem þarf að koma hugmyndinni af stað og hins vegar þeir sem þurfa að koma þessu í sýningu og selja þetta, fólk á öllum stigum ferlisins mætir á ráðstefnuna og ksoðar það sem þar er. Þetta er alls konar teiknað efni og þarna verðum við með okkar seríu,“ segir Fannar.

Lichtenschwein er ekki hugsað sem barnaefni. Hugmyndin hefur verið til í níu ár og var á sínum tíma kynnt sem tvívíddar teiknimynd fyrir nokkrum árum. Það var hins vegar í vetur sem höfundarnir ákváðu að ráðast í gerð þrívíddar teiknimyndarseríu.

„Þetta er ekki barnaefni, þetta er meira í anda South Park, þetta er svartur húmor,“ segir Fannar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .