Ráðgjafafyrirtækið beOmni aðstoðar íslensk fyrirtæki í verslun og þjónustu við að móta heildræna verslunarupplifun með ráðgjöf, rannsóknum, fræðslu og þjálfun. Dr. Edda Blumenstein, stofnandi og framkvæmdastjóri beOmni, segir markmiðið að aðstoða fyrirtæki við að taka gagnadrifnar ákvarðanir.

„Það var enginn sem var að sérhæfa sig í að veita þessa Omni-channel þjónustu og ráðgjöf hér á Íslandi, og enginn sem hefur verið að rannsaka verslunarhæfni fyrirtækja og samkeppnisstöðu þeirra á markaði“ segir Edda en mikill áhugi hafi verið meðal innlendra aðila á slíku.

„Þá geta verslanir séð nákvæmlega út frá þessum þjónustuþáttum hvar þær standa, hvaða þjónustu þær eru að veita þvert á allt kaupferlið og alla kanala, og síðan í framhaldi með því að gera könnun meðal viðskiptavina verslunarinnar þá er hægt að forgangsraða þeim þjónustuþáttum sem þau fá mest út úr því að ráðast í að bæta við og munu hafa mest áhrif á ánægju og tryggð viðskiptavina.“

Upplifa sig sem mátunarklefa

Erlend samkeppni sé þá mikilvægur þáttur sem horfa verði til en þar á meðal megi nefna netverslunarrisa á borð við Boozt og Amazon sem sækja stöðugt í sig veðrið.

„Það eru þessir risar sem eru að ógna íslenskri verslun og verslanir upplifa það sífellt meira að vera mátunarklefi eða sýningarsalur fyrir erlenda netverslunarrisa. Það má ekki misskilja, ég fagna aukinni samkeppninni því það er gott fyrir neytendur á Íslandi og fyrir verslunina að það sé samkeppni, að við séum með meira vöruúrval og verðsanngirni og góða þjónustu, en við viljum að sama skapi standa vörð um íslenska verslun.“

Margir vilji sjá hvernig íslenskar verslanir geti gert betur en að sögn Eddu sýna fyrstu niðurstöður að Ísland eigi heilmikið inni þegar kemur að þjónustu og þá ekki síst stafrænni þjónustu. Kauphegðun viðskiptavina hafi breyst mikið meðal annars með nýrri kynslóð en sjálfsafgreiðsla og sjálfsþjónusta reynist sífellt mikilvægari.

Nánar er rætt við Eddu í nýjasta sérblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.