Staða Ítalíu er mesta ógnin við evrusvæðið að mati Fitch, alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækisins. Ekki hafi tekist að koma í veg fyrir að vandinn smitist yfir á önnur lönd vegna mikilla skulda og hás lántökukostnaðar Ítalíu.

Wall Street Journal hefur eftir David Riley, greinanda ríkisskulda hjá Fitch, að líkur séu á að lánshæfismat Ítalíu verði lækkað í lok janúar. Áætlað er að selja ítölsk ríkisskuldabréf fyrir 440 milljarða evra á þessu ári. Ávöxtunarkrafa tíu ára ríkisskuldabréfa var 7,13% á þriðjudagsmorgun sem er 5,25 prósentustigum yfir ávöxtunarkröfu þýskra ríkikisskuldabréfa.

Hér að neðan ræðir Francesco Guerrera, ritstjóri markaðsviðskipta hjá WSJ, um stöðuna á evrusvæðinu í upphafi vikunnar. Þegar staðan er metin þurfi að hafa í huga gríðarlegum fjárhæðum sem fjármálafyrirtæki á evrusvæðinu þurfa til að endurfjármagna starfsemina. Það geti þrengt að smærri bönkum sem séu í erfiðri stöðu.