Hlutabréfamarkaðir hækkuðu talsvert í Evrópu í dag, þriðja daginn í röð, en að sögn Reuters fréttastofunnar má rekja hækkanir dagsins til jákvæðra viðbragða fjárfesta af fréttum að fundi 20 helstu iðnríkja heims (G20) sem hófst í Lundúnum í dag.

Á fundi G20 ríkjanna í dag var rætt um að ríkin myndu verja allt að 1000 milljörðum Bandaríkjadala til þess að halda fjármálakerfum landanna gangandi auk þess sem talið er að á morgun náist samkomulag um breyttar reglur fjármálafyrirtækja og markaða.

Þá sagði Jean Claud Trichet, seðlabankastjóri Evrópu að allt bendi til þess að flest hagkerfi heims muni ná skjótum bata í byrjun næsta árs en einungis ef ríki heims sammæltust um að halda vel á spöðunum, draga úr ríkisútgjöldum og halda fjármálakerfinu gangangi.

FTSE 300 vísitalan, sem mælir 300 stærstu skráðu félögin í Evrópu, hækkaði um 4,9% í dag en vísitalan hefur engu að síður lækkað um 6% það sem af er ári.

Það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu miklar hækkanir í Evrópu í dag. Til að mynda hækkuðu bankar á borð við HSBC, Barclays, BNP Paribas, Banco Santander, Deutsche Bank, UBS og Standard Chartered á bilinu 9,5% - 15,9%.

Á sama tíma hækkaði gengi bréfa hjá bílaframleiðendum, orkufyrirtækjum og námufyrirtækjum.

Minnst var lækkunin í Kaupmannahöfn þar sem OMXC vísitalan hækkaði um 3% en mest var hún í Frankfurt þar sem DAX vísitalan hækkaði um 6,1%.

Dow Jones yfir 8.000 stig á ný

Þá hafa markaðir einnig hækkað í Bandaríkjunum það sem af er degi en auk fyrrgreindra atriða liggur frumvarp nú fyrir Bandaríkjaþing sem kveður á um breyttar uppgjörsreglur. Viðmælendur Bloomberg fréttaveitunnar telja að nýjar reglur sýni betur „raunverulegan“ hagnað fyrirtækja og hafa fjárfestar brugðist vel við hugsanlegum lagabreytingum.

Nasdaq vísitalan hefur hækkað um 3,3%, Dow Jones um 3,1% og S&P 500 um 3% en líkt og í Evrópu eru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiða hækkanir.

Dow Jones vísitalan er því komin yfir 8.000 stig í fyrsta skipti í um tvo mánuði.