„Erlendir ríkisborgara hafa styrkt íslenskt efnahagskerfi og erlendir skattgreiðendur skila meiru til ríkis og sveitarfélaga en þeir kosta því flestir sem hingað koma eru á vinnufærum aldri.  Skattar sem erlent starfsfólk greiðir til íslensks samfélags eru m.a. notaðir til að reka mennta- og heilbrigðiskerfið. Erlent verkafólk skapar verðmæti fyrir samfélagið í heild sinni og margir úr þeirra röðum sinna öldruðum og sjúkum."

Þetta er ein af niðurstöðum skýrslu sem Sigríður Elín Þórðardóttir, sérfræðingur á þróunarsviði Byggðastofnunar, hefur unnið fyrir stofnunina og fjallar um skatta og gjöld erlendra ríkisborgara árið 2009 og áhrif þeirra á fólksfjöldaþróun. Í skýrslunni kemur fram að erlendir ríkisborgarar greiddu yfir 10 milljarða króna í skatta og gjöld árið 2009 en þar af var álagður tekjuskattur rúmir 4 milljarðar og álagt útsvar rúmir 6 milljarðar.

Ennfremur kemur fram að á árinum 1961-2010 fluttu rúmlega 21 þúsund fleiri Íslendingar frá landinu en til þess en á sama tíma fluttu 25 þúsund fleiri útlendingar til landsins en frá því. Því hafa erlendir ríkisborgarar stuðlað að jákvæðri fólksfjöldaþróun.