Japanar og Kasakar hafa ákveðið að hefja viðræður um samstarf um viðskipti með kjarnorkuefni og tækni til friðsamlegra nota milli landanna. Þetta er í fyrsta sinn sem Japanar fara í slíkar viðræður við þróunarríki. Japanar hyggjast kaupa meira magn af úraníum frá Kasökum en áður, en Kasakstan er næst auðugasta ríki af úraníum í heimi á eftir Ástralíu. Viðræðurnar byggjast meðal annars á þeirri kröfu Japana að stjórnvöld í Kasakstan hleypi eftirlitsmönnum frá Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni í kjarnorkustöðvar sínar með litlum fyrirvara.