Á sama tíma og vonir manna standa til þess að verstu vandræðin á fjármálamörkuðum séu yfirstaðin gæti jenið farið að styrkjast á ný. Aukin áhættusækni fjárfesta þarf ekki endilega að leiða til þess að vaxtamunarviðskipti með jenið verði í jafn miklum mæli og áður.

Nicholas Hastings, sérfræðingur í gjaldeyrismálum og pistlahöfundur Dow Jones-fréttaveitunnar, segir að það sé einkum þrennt sem renni stoðum undir þessa skoðun: Fjármálaskýrendur telja ólíklegt að áhugi fjárfesta á vaxtamunarviðskiptum færist í sama horf og fyrir undirmálslánakrísuna; japanskar fjármálastofnanir hafa orðið fyrir mun minni skaða vegna umrótsins á fjármálamörkuðum í sumar heldur en samkeppnisaðilar þeirra vestanhafs og í Evrópu; og auk þess er nú talið að styttra sé í næstu stýrivaxtahækkun Japansbanka en áður var haldið.

Fundargerð Japansbanka frá stýrivaxtaákvörðun bankans í ágústmánuði, sem var birt á þriðjudaginn, hefur aukið væntingar fjárfesta um að vextir verði hækkaðir á árinu upp í 0,75%. Þrátt fyrir að vaxtaákvörðun bankans í ágúst hafi verið tekin í miðri lausafjárkrísunni á fjármálamörkuðum, þá sýna ummæli stjórnarmanna bankans að þeir telji nauðsynlegt að framfylgja aðhaldssamri peningamálastefnu um leið og aðstæður á alþjóðlegum fjármálamarkaði breytast til hins betra. Það hefur einnig verið markmið Toshihiko Fukui, seðlabankastjóra, að hækka stýrivexti í það sem "eðlilegt" geti talist, áður en hann lætur af embætti í mars á næsta ári.

Minnkandi áhugi fjárfesta á vaxtamunarviðskiptum með jenið
Það sem hefur hins vegar helst orðið til þess að ýta undir væntingar fjárfesta um stýrivaxtahækkun eru þau takmörkuðu áhrif sem undirmálslánakrísan á bandarískum fasteignamarkaði hefur haft á japanskar fjármálastofnanir - ólíkt því sem hefur orðið á Bretlandi og evrusvæðinu. Í fundargerð bankans kemur fram að stöðutaka japanskra fjármálafyrirtækja í bandarískum undirmálslánum sé "óveruleg". Af þeim sökum hefur máflutningur þeirra stjórnarmanna í bankanum sem vilja hefja vaxtahækkunarferli sem fyrst fengið aukið vægi.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.