Jóhann Jónasson, forstjóri 3X Technology, segir að Byggðastofnun hafi verið skipað það ógerlega hlutverk að úthluta fjármunum til fyrirtækja sem eiga mörg hver erfitt með að reka sig. Sá aðili sem hefur fengið á sig óorðið vegna rekstrarerfiðleika Byggðastofnunar er landsbyggðin öll. Hann sagði að hver maður hljóti að hafa óbeit á slíkri ráðstöfun fjármuna þjóðarinnar.

Jóhann fjallaði um starfsskilyrði á landsbyggðinni á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins í dag. Hann sagði að nær væri að leggja fjármuni í verkefni sem vinna að bættu rekstrarumhverfi fyrirtækja á landsbyggðinni, heldur en að nota þá til þess að bæta stöðu Byggðastofnunar. Jóhann benti á að árlega fara um 500 milljónir til reksturs Byggðastofnunar . Með fækkun stofnana sé mögulegt að styðja betur við og bæta þann jarðveg sem til þurfi í atvinnuuppbyggingu.