Eins og kunnugt er orðið lögðu þingmenn Samfylkingar, VG og Framsóknarflokksins fram breytingartillögu á Seðlabankafrumvarpinu svokallaða sem fjallar um hlutverk peningastefnunefndar, á fundi viðskiptanefndar í gærkvöldi.

Breytingatillagan er svohljóðandi:

„Ef peningastefnunefnd metur það svo að alvarleg hættumerki séu til staðar sem ógni fjármálakerfinu skal hún opinberlega gefa út viðvaranir þegar tilefni eru til.“

Með þessari breytingu var frumvarpið samþykkt úr viðskiptanefnd þingsins og verður tekið til þriðju umræðu á Alþingi í dag.

Hlutverk nefndarinnar breytist til muna

Jón Daníelsson, prófessor í fjármálum við London School of Economics setur ákveðna fyrirvara við þá breytingatillögu sem lögð var fram á í gær.

„Til að geta sinnt þessu hlutverki þarf nefndin að hafa aðgang að upplýsingum sem hún öllu jöfnu hefur ekki og þannig hefði ekki allar forsendur til að meta hættumerki,“ segi Jón í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir að mögulega sé nefndin að stíga inn á svið sem Seðlabankinn, eða öllu heldur sérfræðingar bankans eigi öllu jafna að sinna, þ.e. að meta hættuna í fjármálakerfinu og fylgjast með því dag frá degi.

„Við þetta breytist hlutverk nefndarinnar til muna,“ segir Jón og bætir því við að í framhaldinu muni þeir einstaklingar sem sæti eiga í nefndinni öðlast persónulega ábyrgð á hlutverki sem embættismenn Seðlabankans ættu öllu jafna að bera.

„Ákvarðanataka um peningamálastefnu er mikilvægt hlutverk,“ segir Jón.

„Það að íþyngja þeim aðilum sem sitja í henni með óskyldu upplýsinga- og viðvörunarhlutverki verður bara til að draga úr skilvirkni nefndarinnar.“