Allt bendir til þess að Íslendingar hafi lítinn áhuga á erlendum fjárfestingum. Við erum of gjörn að líta svo á að erlendir aðilar taki til sín of mikla rentu af auðlindum okkar eftir að hafa fjárfest hér.

Þetta sagði Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, fyrir skömmu á Viðskiptaþingi sem nú stendur yfir.

Jón fjallaði um að sem hann kallaði köku- og tómatsósuáhrifin við efnahagsstjórn á Íslandi. Margir litu svo á að með því að taka sneið af kökunni væri verið að taka frá einhverjum öðrum. Þannig hefðu margir þann skilning að erlendir aðilar væru að taka of mikinn hluta af kökunni til sín.

Með tómatsósu líkingunni sagði minnti Jón á gömlu glerflöskurnar sem alltaf þurfti að berja í til að ná tómatsósunni út. Flestir könnuðust við það að berja á flöskuna og innan skamms gussaðist öll tómatsósan út. Jón líkti þessu við stóriðjuframkvæmdir sem hefðu leitt til mikils ójafnvægis í efnahagskerfinu á skömmum tíma. Þannig sagði Jón að vegna smæðar Íslands væri öll framþróun og allar breytingar alltaf hlutfallslega risavaxnar. Nefndi hann síldarveiðar á síðustu öld og fjárfestingar í orkufrekum iðnaði sem dæmi þar um.

Þá líkti Jón íslensku krónunni við það að hafa fíl í stofunni, öll vinnan færi í það að moka undan honum. Jón sagði Íslendinga sitja uppi með tvo ónýta gjaldmiðla, krónu og verðtryggða krónu. Hann sagði að gengissveiflur ykju kostnað fyrirtækja.

Jón vék að gjaldeyrishöftunum í erindi sínum og líkti því við það að búa í Austur Þýskalandi á dögum kommúnismans. Búið væri að fangelsa Íslendina innan um gaddavír og komisserar væru sem stendur hæstánægðir með árangur sinn.

Jón sagði að mikilvægt væri að taka upp annan gjaldmiðil á Íslandi. Hann sagði að stór alþjóðleg fyrirtæki gætu ekki starfað í landi gjaldeyrishafta til lengri tíma. Að öllum líkindum myndu fyrirtæki eins og Össur fara úr landi þegar fram í sækir.

„Þeir sem vilja ekki ganga í ESB og taka upp evru skulda okkur aðra leið,“ sagði Jón. Hann líkti andstæðingum þess að ganga í ESB við þá sem vilja fara 20 ár aftur í tímann.