Kakó og sykur virðast hafa verið vænlegustu hrávörurnar til að fjárfesta í ef miðað er við gengi á hrávörumarkaði í London síðastliðna 12 mánuði. Hefur verð á kakói hækkað á markaði um 55,40% á einu ári og um 13,55% á sykri. Til samanburðar hefur olía sem margir fjárfestar ætluðu að græða mikið á lækkað um 46,58% (-55,44% á NYMEX). Þá má nefna að verð á timbri er nú 30% lægra en fyrir 12 mánuðum.

Á hrávörulista Financial Times yfir 27 hrávörutegundir eru einungis þrjár að seljast á hærra verði í dag en á sama tíma í fyrra. Auk kakós og sykurs sem eru á hærra verði er þar að finna svínakjöt sem nefnt er á markaðnum “Lean Hogs”. Hefur það hækkað um 3,4% á milli ára. Allar aðrar hráefnisvörur hafa lækkað. Þar eiga olía og kopar metið og hafa lækkað hlutfallslega álíka mikið. Ál er nú skráð 41,63% lægra en á sama tíma í fyrra. Þá er gull 3% lægra, en margir sérfræðingar veðja á að gull eigi eftir að hækka taksvert fram á sumarið í takt við versnandi efnahagsástand á heimsvísu.