„Eins og ég sagði, þá er Kína núna vaxandi, stórt land í örri þróun. Það er kannski engin furða að sum lönd velti fyrir sér hvað vaki fyrir Kínverjum. En ef Kína væri ennþá jafn fátækt og það var áður, þá væri öllum sama um það. Áður fyrr var það þannig að önnur lönd gátu ráðist inn í landið og ráðskast með Kínverja, en það tilheyrir fortíðinni. En nú, fyrst Kína er að vaxa fiskur um hrygg, þá verða þessi lönd tortryggin."

„Fyrir vikið, þegar við byggjum sendiráð á Íslandi, þá velta sumir sér upp úr því að það sé stórt. Að sama skapi, þegar Kína vill taka þátt í samstarfi og rannsóknum á Norðurslóðum, þá eru einhverjir sem telja að þar búi eitthvað misjafnt að baki."

„Í Kína er til málsháttur sem er á þennan veg: „Við skiljum ekki hugmyndir herramannsins með þankagangi bjánans.“ Ég held að við þurfum að reyna að skilja hvort annað á jafningjagrunni. Við verðum að segja skilið við hugtök og þankagang Kalda stríðsins, þar sem við erum sífellt að tortryggja gjörðir hvert annars. Við þurfum ekki að reisa girðingar um okkur eða líta á hvort annað sem óvini, en þannig var Kalda stríðið. Því lauk fyrir fjölda ára, en þessi hugsanaháttur er ennþá til staðar hjá sumum. Kínverjar hafa sagt skilið við hann, og Kalda stríðs-hugmyndafræðina."

„Við erum ekki óvinir og við ættum að einbeita okkur að því af alvöru hvernig við getum lifað í sátt og samlyndi sem manneskjur. Það er stefna og hugmyndafræði Kínverja, þar sem við reynum að byggja heiminn upp í samstarfi, í stað þess að takast á andspænis hvert öðru. Þetta skín í gegn í kínverskri heimspeki og sést vel í daglegu lífi og starfi Kínverja. Friður er það mikilvægasta í lífi okkar.“

Ítarlegt viðtal við Zhang Weidong, sendiherra Kína á Íslandi, er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .