Innlendir aðilar keyptu erlend verðbréf fyrir 7,2 ma.kr. nettó í ágúst samanborið við 5,1 ma.kr. í sama mánuði í fyrra samkvæmt tölum sem Seðlabankinn birti í morgun. Erlend verðbréfakaup hafa vaxið jafnt og þétt í tvö og hálft ár og hafa ekki í annan tíma verið meiri en nú, mælt yfir tólf mánaða tímabil. Flest bendir til að þau muni áfram vaxa á næstu mánuðum.

Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að sem fyrr séu kaupin mest í hlutdeildarskírteinum í erlendum verðbréfasjóðum og í erlendum hlutabréfum. Það sem af er ári nema erlend verðbréfakaup 45,5 mö.kr. nettó samanborið við 23,0 ma.kr. á sama tímabili í fyrra og 15,8 mö.kr. á sama tímabili 2002. Erlend verðbréfakaup í svo miklu magni skapa að öðru óbreyttu talsverðan þrýsting til lækkunar á gengi krónunnar. Á móti kaupunum kemur hins vegar að fjárfestar hafa verið að auka við gengisvarnir safna sinna. Hér er ekki alfarið um sömu aðila að ræða og standa að baki erlendu verðbréfakaupunum. Þó má ætla að auknar gengisvarnir hafi náð að vega upp á móti erlendum verðbréfakaupum þannig að nettóáhrif þessara fjármagnshreyfinga á milli landa á gengi krónunnar hafi verið hverfandi sé litið til síðustu mánaða segir í Morgunkorninu.