Lífeyrissjóðurinn Birta hefur keypt 400.000 hluti í Sýn, sem rekur Vodafona á Íslandi. Markaðsvirði bréfanna miðað við núverandi gengi upp á 51 krónu er 20,4 milljónir króna. Sýn sendi frá sér afkomuviðvörun í gærkvöldi og lækkuðu EBITDA spá sína fyrir þriðja ársfjórðung. Jafnframt sendi félagið frá sér tilkynningu um sölu á hlut í fjarfskiptafélagi í Færeyjum.

Samkvæmt afkomuviðvöruninni er útlit fyrir að EBITDA félagsins verði undir uppgefnum horfum en drög þriðja ársfjórðungs skilar EBITDA upp á 1.032 milljónum króna. Það er 21% aukning frá sama fjórðungi á síðasta ári en félagið segir ástæðuna fyrir að það vera undir væntingum vegna tafa í verkefnum vegna samruna 365 miðla og Vodafone.

Samkvæmt nýjum innri horfum Sýnar fyrir 2018 er gert ráð fyrir um 3.600 milljóna króna EBITDA af grunnrekstri fyrir árið. Það er miðað við 150 milljónir króna skilgreinda einskiptisliði sem féllu aðallega til á fyrri hluta ársins í tengslum við kaup félagsins á tilteknum eignum og rekstri 365 miðla. Hefur gengi bréfa félagsins lækkað skart eða um í kringum 9% í morgun.

Samkvæmt hluthafalista Keldunnar er fjárfestingarsjóðurinn Landsowne stærsti hluthafinn í Sýn með 12,18% eignarhlut og Gildi lífeyrissjóðir næststærstur í 11,91% hlut. Það er þó líklega eitthvað búið að breytast enda 365 miðlar enn skráðir sem þriðji stærsti eigandinn með 10,92%, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í byrjun síðasta mánaðar seldi félagið allan sinn hlut í Sýn fyrir tæpa tvo milljarða.

Lífeyrissjóður verslunarmanna er svo næstur með 10,87% eignarhlut en Úrsus, félag Heiðars Guðjónssonar er enn skráð fyrir einungis 6,49% hlut. Eignarhlutur hans var þó kominn upp í 8,5% í byrjun mánaðarins og að andvirði 1,5 milljarða. Þá var gengi bréfanna þó nokkuð hærra, eða 61,5 krónur á hlut. Jafnframt hefur Viðskiptablaðið sagt frá því að Kvika hafi keypt í Sýn fyrir 400 milljónir í byrjun október og eigi nú um 7% í Sýn.

Jafnframt tilkynnti félagið um að félagið seldi meirihluta hlutafrjár í Hey P/F fjarskiptafélaginu í Færeyjum í tengslum við samruna félagsins við Nema P/F. Sýn hafi komist að samkomulagi við færeyska félagið Tjaldur, móðurfélags Nema, um helstu skilmála viðskiptanna.

Verður Sýn eftir viðskiptin eigandi af 49,9% eignarhlut í sameinuðu félagi en Tjaldur mun eiga 50,1%. Fær Sýn jafnframt greiðslu sem nemur 22 milljónum danskra króna, eða sem samsvarar 408 milljónum íslenskra króna við samrunann. Gengi hlutabréfa Sýnar hefur lækkað um ríflega 9% það sem af er morgni.