Þrátt fyrir hrun samvinnuhreyfingarinnar fyrir aldamótin síðustu og brotthvarf Sambands íslenskra samvinnufélaga úr hópi íslenskra viðskiptavelda eru þó enn nokkur starfandi kaupfélög eftir á landinu. Ekki þarf að koma á óvart að Kaupfélag Skagfirðinga ber þar höfuð og herðar yfir önnur kaupfélög. Hins vegar kann að koma þeim á óvart, sem ekki þekkja vel til kaupfélaganna, að þrjú önnur kaupfélög skiluðu meira en 100 milljóna króna hagnaði á síðasta ári sem ársreikningar liggja fyrir um.

Burðugustu kaupfélögin eru Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga, Kaupfélag Skagfirðinga, Kaupfélag Vestur- Húnvetninga og KEA. KEA sker sig úr að því leyti að eignir þess eru nær alfarið í markaðs- og fjárfestingarverðbréfum og nam hagnaður þess árið 2010 alls 101,3 milljónum króna. Hin félögin þrjú eru í rekstri en aðeins Kaupfélag Skagfirðinga og Kaupfélag Vestur-Húnvetninga eru enn í verslunarrekstri. Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga fær stærstan hluta tekna sinna frá dótturfélaginu Loðnuvinnslunni. KS er eins og kunnugt er umsvifamikið í Skagafirði, þar á meðal í útgerð í gegnum dótturfélögin Fisk Seafood og Íslenskar sjávarafurðir. Mjólkurkú KVH er hins vegar Sláturhús KVH, sem skilaði um 75% af heildarhagnaði samstæðunnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.