Þrátt fyrir að lokað sé í Kauphöllinni hér á landi í fimm daga yfir páskahátíðina er ekki þannig farið á mörkuðum erlendis. Til að mynda var opið á Norðurlöndunum á fimmtudag, skírdag og þá hækkaði Kaupþing í Kauphöllinni í Stokkhólmi um 7,8%. Þá hækkuðu bréf bæði í Asíu og í Bandaríkjunum í gær.

Fimmtudagur - skírdagur

Hlutabréf lækkuðu í Asíu á fimmtudag í kjölfar lækkunar hrávöruverðs sem dró niður hlutabréfaverð í félögum á borð við námafélagið BHP Billiton í Ástralíu, Zhongjin Gold í Kína og Korea Zinc í Kóreu, að því er segir í WSJ.

Úrvalsvísitalan í Shanghæ féll um 3,5%, í Hong Kong nam lækkunin 3,7% og í Ástralíu lækkuðu hlutabréf um 2,7%. Hlutabréfamarkaður var lokaður í Japan á fimmtudag.

Í Evrópu var einnig lækkun á skírdag.

Hins vegar hækkuðu hlutabréf í Bandaríkjunum sama dag. Hjá Bloomberg fréttaveitunni kemur fram að hækkunina megi rekja til trú manna á að aðgerðir bandarískra húsnæðisyfirvalda muni koma á stöðugleika á húsnæðislánamarkaði. Nasdaq og Dow Jones hækkuðu um 2%, og Standard & Poor´s 500 hækkaði um 2,2%.

Föstudagurinn langi

Á föstudaginn langa var lokað bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum.

Þá hækkuðu bréf í Asíu í þeim löndum þar sem á annað borð var opið með viðskipti. Það voru helst fjármálafyrirtæki og bílaframleiðslufyrirtæki sem hækkuðu. Nikkei vísitalan í Japan hækkaði um 1,8% og í Suður Kóreu hækkuðu hlutabréf um 1,3%. Þá var hækkun upp á 2,25% í Taiwan. Lokað var í Ástralíu, Hong Kong og Singapúr

Mánudagur – annar í páskum

Í gær var opið í Bandaríkjunum og að hluta til í Asíu en lokað í Evrópu.

Hlutabréf hækkuðu í Asíu í gær en viðskipti voru með minna móti þar sem sumir markaðir voru lokaðir. Hlutabréf hækkuðu um 4% í Tævan sem leiddi hækkanir í Asíu eftir að stjórnarandstæðingar sigruðu í forsetakosningum um helgina. Að sögn Reuters eru væntingar um bætt viðskiptatengsl og minni pólitíska togstreitu við meginland Kína.

Hlutabréf í Japan hækkuðu um 0,4%, í Kóreu um 0,6% og í Singapúr um 2,5%, en lækkuðu um 4,5% í Shanghæ í Kína. Markaðurinn í Hong Kong var lokaður í gær.

Í gær náði hlutabréfaverð í Bandaríkjunum sínum hæstu hæðum í þessum mánuði í kjölfar þess að JP Morgan Chase tilkynnti um að yfirtökutilboð í alla starfsemi Bear Stearns yrði hækkað verulega í gær.

Bréf í Bear Stearns tvöfölduðust í verði eftir að JP tilkynnti um að 10 dollarar yrðu greiddir fyrir hvert bréf í stað þeirra tveggja dollara sem áður höfðu verið boðnir.

Tiffany & Co, næststærsti söluaðili hágæðaskartgripa í Bandaríkjunum birti uppgjör framar væntingum, og hafði það jafnframt jákvæð áhrif á markaðinn að mati Bloomberg fréttaveitunnar.

Standard & Poor's 500 vísitalan bætti við sig 1,7% prósentustigum, og var þetta í fyrsta skipti í þessum mánuði sem vísitalan hækkaði tvo daga í röð. Dow Jones hækkaði um 1,6% og Nasdaq hækkaði um 3,1%.

Olíuverð fór niður fyrir 100 dollara í gær, og við lokun markaða kostaði tunnan 99,86 dollara og hafði lækkað um ríflega hálft prósent.