Kaupþing Singer & Friedlander hefur tilkynnt að skipulagsbreytingum á bankasviði hefur verið lokið, og að eignamarkaðs- og hrávöruviðskiptaborði félagsins í Bretlandi hafi verið lokað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Í kjölfar skipulagsbreytinganna verður lögð áhersla á þjónustu við lítil og meðalstór fyrirtæki og einstaklinga með miklar eignir. Megináherslan verður á fimm sviðum – almenn bankastarfsemi, fjárfestingabankastarfsemi, markaðsviðskipti, eignastýring og einkabankaþjónstu.

Við niðurlagningu þeirra sviða sem nú á sér stað innan Kaupþings mun losna um allt að því einn milljarð punda á árinu 2008, að því er segir í tilkynningu. Það fjármagn verður notað til að stuðla að frekari vexti í Bretlandi. Starfsemi verður að sama skapi flutt frá Manchester og Leeds til London og Birmingham.

Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kaupþings Singer & Friedlander, segir í tilkynningu að þessi hagræðing sé síðasta skrefið í yfirtökunni á Singer og Friedlander.