Kaupþing undirritaði í desember sambankalán að virði 530 milljónir evra, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, en ekki er vitað til þess að bankinn hafi greint opinberlega frá lántökunni.

Lánsupphæðin samsvarar 47 milljörðum íslenskra króna og eru vaxtakjörin 29,5 punktar yfir EURIBOR-vexti, sem eru millibankavextir í Evrópu, ef lánið er nýtt. Sambankalánið er veltilán (e. revolver) og borgar bankinn 12 punkta yfir EURIBOR-vexti fyrir heimildina.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins á sambankalánamarkaði segja að ólíklegt sé að Kaupþing muni nýta sér heimildina, en lánið endurfjármagnar 250 milljón evra veltilán frá árinu 2004.

Mikil umframeftirspurn var eftir pappírnum á sambankalánamarkaði í Evrópu og var lánið stækkað úr 250 milljónum evra í 530 milljónir í kjölfarið. Lánið er leitt af belgíska bankanum Fortis Bank, hollenska bankanum ING Bank, austurríska bankanum RZB og japanska bankanum SMBC.