Lyfjarisinn Pfizer tilkynnti í gær um að hann myndi kaupa kanadíska lyfjaframleiðandann Trillium Therapeutics fyrir 2,26 milljarða dala, eða um 288 milljarða króna. Reuters greinir frá.

Pfizer bindur vonir við að tvö lyf í þróun hjá Trillium muni skila árangri. Lyfjameðferðin nýtir ónæmiskerfið til að glíma við blóðkrabbamein á borð við hvítblæði og mergæxli, á svipaðan hátt og lyfið Keytruda frá Merck hefur umbreytt læknameðferð fyrir margar tegundir fastra æxla (e. solid tumors).

Pfizer hafði þegar keypt 25 milljóna dala hlut í Trillum í fyrra en mun nú eignast restina af hlutafé fyrirtækisins. Pfizer mun greiða um 203% álag ofan á síðasta dagslokagengi Trillium.

Meira en ein milljón manns greindust með blóðkrabbamein á síðasta ári, sem vegur um 6% af öllum greindum krabbameinum.