*

sunnudagur, 24. október 2021
Innlent 19. október 2020 12:39

Kaupmátturinn jókst um 0,7%

Ekki minni kaupmáttaraukning á mann á síðasta ári síðan árið 2013 þegar hún var neikvæð. Rástöfunartekjur jukust um 6%.

Ritstjórn
Heildartekjur íslenskra heimila jukust um 6% á síðasta ári, en þar af launatekjur um 4,3%.
Haraldur Guðjónsson

Ráðstöfunartekjur íslenskra heimila jukust um 6,1% á síðasta ári, en þó ráðstöfunartekjur á mann hafi aukist um 3,8% á milli ára jókst kaupmáttur ráðstöfunarteknanna á mann um nokkru minna eða 0,7% að því er Hagstofa Íslands greinir frá.

Hefur aukning kaupmáttarins ekki verið minni frá því að hún var neikvæð árin árið 2013, en árið 2008 var hún jákvæð um 0,1%. Aukning var 2,1% árið 2018, en yfir 6% árin tvö þar áður, og 4,7% árið 2014.

Heildartekjur heimilanna jukust árið 2019 um 6,0% frá fyrra ári. Þar af jukust heildar launatekjur um 4,3%, rekstrarafgangur vegna eigin eignarhalds um 10% og eignatekjur um 6,4%. Heildartilfærslutekjur jukust um 10,7% á milli ára. Þá jukust heildareigna- og tilfærsluútgjöld um 5,8% en þar af jukust tilfærsluútgjöld um 5,8% og eignaútgjöld um 5,3%.

Ráðstöfunartekjur heimilanna má skilgreina sem samtölu launatekna, eignatekna, tilfærslutekna, reiknaðs rekstrarafgangs vegna eigin eignarhalds, þar með talið íbúðarhúsnæðis, en að frádregnum eigna- og tilfærsluútgjöldum.