Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. og KB banki hf. hafa undirritað lánssamning vegna fjármögnunar á stækkun norðurbyggingar flugstöðvarinnar til suðurs og endurgerð 2. hæðar. Samningurinn kveður á um 3,3 milljarða króna framkvæmdalán sem breytist í langtímalán við lok framkvæmda. Áætlað er að framkvæmdirnar taki tvö ár og að heildarkostnaður nemi tæpum 5 milljörðum króna.

Samkvæmt nýrri spá um farþegafjölda er gert ráð fyrir að tvöfalt fleiri farþegar fari um Flugstöð Leifs Eiríkssonar árið 2015 heldur en árið 2004, sem er fjölgun úr 1,6 milljónum farþega í 3,2 milljónir. Því var ákveðið að stækka flugstöðvarbygginguna til suðurs um 14.000 fermetra að heildargrunnfleti, auk þess að breyta skipulagi á 1. og 2. hæð hennar. Verkið hófst nú í október 2005 og áætlað er að því ljúki vorið 2007