Bandaríska skyndibitakeðjan Kentucky Fried Chicken (KFC) áætlar nú að opna allt að 300 nýja veitingastaði á Bretlandseyjum á næstu 3-5 árum og skapa með því um 9 þúsund ný störf.

Í tilkynningu frá KFC kemur fram að Bretar sækist í meira magni eftir ódýrum skyndibitamat og því sjái keðjan sér leika á borði með því að opna nýja staði.

Nú þegar eru 760 KFC staðir á Bretlandseyjum en Martin Shuker, framkvæmdastjóri KFC í Bretlandi segir í samtali við BBC að rekstur veitingastaðanna gangi vel en samkeppninni verði í auknu mæli beint gegn helsta keppinautnum MacDonalds.

KFC opnaði 36 nýja veitingastaði á Bretlandseyjum á síðasta ári og áætlar opna 44 nýja staði á þessu ári. Hjá keðjunni starfa nú um 22 þúsund manns á Bretlandseyjum.