Kínversk stjórnvöld áforma að sameina ríkisfyrirtæki með það að markmiði að auka hagkvæmni í opinbera geiranum. Sérstaklega verður horft til þess að sameina fyrirtæki í geirum þar sem ríkir samkeppni. Þá verða ýmis þjónustufyrirtæki einkavædd. Business Insider greinir frá.

Kínversk stjórnvöld keppast nú við að halda uppi hagvexti, en hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi var sá lakasti í sex ár. Kínverska ríkið á nú 112 stórfyrirtæki og 227 fyrirtæki sem skráð eru í kauphallirnar í Shanghai og Shenzhen. Markaðsvirði þessara fyrirtækja er yfir 1.600 milljarðar dollara, eða sem samsvarar um 215.000 milljörðum króna. Á meðal þess sem er áformað er að sameina lestarframleiðendurna CSR Corp Ltd og China CNR Corp Ltd. Markmið þess samruna er að búa til fyrirtæki sem getur keppt við erlenda framleiðendur á borð við Siemens og Bombardier.

Áform kínverskra stjórnvalda um uppstokkun í ríkisgeiranum eru hluti af stærri breytingum sem hafa það að markmiði að auka samkeppnishæfni kínverska hagkerfisins. Stjórnvöld hafa tilkynnt um harðari aðgerðir gegn spillingu og að þau leitist við að auka gegnsæi í ríkisrekstri. Á síðustu vikum hefur verið tikynnt um rannsóknir á spillingu meðal stjórnenda í nokkrum stórum ríkisfyrirtækjum.