Ríkið er ekki með nýtt tilboð í smíðum í yfirstandandi kjaraviðræðum við Bandalag háskólamanna þar sem ekki er til meira af peningum. Þetta segir Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, í samtali við fréttavef RÚV .

Þar kemur fram að samninganefndin vilji semja út frá þeim efnahagslegu forsendum sem ríkisstjórnin leggi upp með og núna gefi þær svigrúm til 3,6% launahækkunar. Hærri tölur hafa hins vegar verið boðnar á almennum vinnumarkaði og segir Gunnar að ef þær verði að veruleika muni ríkið aðlaga sig að því. Samninganefndin sé í biðstöðu þar til línur skýrist.

Magnús Pétursson ríkissáttasemjari segir í samtali við RÚV að upp sé komin grafalvarleg staða á vinnumarkaði og hún verði alvarlegri með hverjum deginum sem líði. Aðstæðurnar í samfélaginu séu mun flóknari en áður. Tugir þúsunda launþega séu í þeim félögum sem hafi ákveðið að fara í verkfall eða leiti heimilda til þess.