Kjaraviðræður stéttarfélaga iðnaðarmanna og Samtaka atvinnulífsins þokast í átt að samningum samkvæmt formönnum félaganna. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV í dag. Þó hefur ekki verið boðað til funda í kjaradeilum BHM og hjúkrunarfræðinga við ríkið, en verkföll félaganna voru stöðvuð með lögum.

Samninganefndir sex stéttarfélaga iðnaðarmanna sátu á fundi fram á kvöld í gær og áfram verður fundað um helgina. Viðræður við SA halda áfram á morgun, en í dag vinna samningsnefndir hverjar í sínu lagi.

Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna, segir í samtali við RÚV að honum líði ágætlega með viðræður.

„Þegar ögurstundin fer að nálgast þá fara að detta inn svona setningar og menn fara að laga til setningar og að reyna að mætast með sjónarmið inn í kröfur og í sumum atriðum þurfa menn að mætast á miðri leið. Það eru tveir við borðið. Þannig að já, þetta er að mjakast í sumum málum,“ segir Guðmundur.

Náist ekki samkomulag munu sex félög iðnaðarmanna hefja verkfall aðfararnótt þriðjudags og myndu alls 10.500 manns leggja niður vinnu í sjö daga. Guðmundur segir að allt verði gert til að ná samningum.

„Auðvitað er það okkar skylda, bæði fulltrúa stéttarfélaganna og Samtaka atvinnulífsins, eða viðsemjenda, að reyna til þrautar að ná samkomulagi. Það er náttúrulega enginn að leika sér að því að fara í svona aðgerðir eins og vinnustöðvun, eða verkföll. Það er ekki þar með sagt að ef að við fáum ekki það sem að við erum að sækjast eftir, að það takist,“ segir Guðmundur.