*

sunnudagur, 5. apríl 2020
Innlent 15. febrúar 2020 09:01

Klukkan tifar á ný flugfélög

Hugmyndir um nýtt íslenskt flugfélag eru að renna út á tíma ætli það að ná ásættanlegri nýtingu yfir sumarmánuðina.

Ástgeir Ólafsson
Frá blaðamannafundi Fly Play frá því í nóvember.

Ætli nýtt íslenskt flugfélag að hefja starfsemi á þessu ári þyrfti að opna fyrir bókanir í síðasta lagi um miðjan marsmánuð ætli það sér að ná að ná ásættanlegri nýtingu yfir sumarmánuðina sem jafnframt er arðbærasta tímabil ársins í flugrekstri. Þetta er einróma álit viðmælenda Viðskiptablaðsins sem allir eiga það sameiginlegt að hafa áratugareynslu af flugrekstri.

Þann 5. nóvember síðastliðinn var flugfélagið Fly Play kynnt með pompi og prakt í Norðurljósasal Perlunnar þar sem fram kom að miðasala myndi hefjast seinna í þeim mánuði og félagið myndi fljúga á Airbus A320 vélum, fyrst á tveimur en með vorinu yrði fjórum bætt við til viðbótar. Þá kom jafnframt fram í máli Arnars Más Magnússonar, forstjóra félagsins, að fjármögnun væri lokið.

Nú, þremur mánuðum seinna, hefur miðasala ekki enn hafist en félagið tilkynnti í lok nóvember að hún myndi frestast um óákveðinn tíma. Fjármögnun félagsins er ekki enn lokið. Félagið hugðist safna um 12 milljónum evra í hlutafé og var félagið kynnt fyrir fjölmörgum fagfjárfestum, fyrirtækjum í ferðaþjónustu og fjársterkum einstaklingum. Upphaflega lögðu stofnendur félagsins upp með að þeir myndu eiga helmingshlut í félaginu á móti fjárfestum en í byrjun desember greindi Markaðurinn frá því að þeir hefðu lækkað þá hlutdeild niður í 30 prósent.

Skömmu áður höfðu borist fréttir af því að erfiðlega hefði gengið að fá fjárfesta að verkefninu þá sérstaklega vegna hárrar kröfu stofnenda um eignarhlut, auk þess sem fjárfestar höfðu sett spurningarmerki við reynslu þeirra af flugrekstri.

Í lok síðasta mánaðar greindi Viðskiptablaðið frá því að fjármögnun félagsins væri langt á veg kominn en samkvæmt heimildum blaðsins eru það erlendir fjárfestar sem standa að henni. Af Facebook-síðu Play, sem hefur verið þó nokkuð virk allt frá því að félagið var kynnt, má einnig dæma að verið sé að vinna hörðum höndum að því að koma félaginu og bókunarsíðu þess í loftið en í svörum við fyrirspurnum óþreyjufullra ferðalanga segir m.a. að staðan á félaginu sé góð og verið sé að vinna hörðum höndum við að koma félaginu í loftið sem allra fyrst.

Nú þegar komið er fram í miðjan febrúarmánuð er klukkan hins vegar byrjuð að tifa að mati viðmælenda blaðsins ætli félagið sér að ná sumarvertíðinni með bærilegum hætti. Þrátt fyrir að neyslumynstur ferðamanna hafi breyst á síðustu misserum í þá átt að bókunarfyrirvari hefur styst er fyrirvarinn á ferðum í kringum sumarfrí samt sem áður á bilinu 4-6 mánuðir sem þýðir einfaldlega að sala þarf að hefjast sem allra fyrst.

Í þessu samhengi má einnig benda á að flest evrópsk lágfargjaldaflugfélög hafa hafið starfsemi að sumri til eftir að hafa í flestum tilfellum verið sett á laggirnar meira en þremur mánuðum áður. Sem dæmi hófst miðasala WOW air í nóvember 2011 en félagið hóf sig ekki á loft fyrr en um mánaðamótin maíjúní ári seinna. Þrátt fyrir það tapaði félagið um 800 milljónum króna fyrsta sumarið á meðan áætlanir þess höfðu gert ráð fyrir 200-300 milljóna tapi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Play Fly Play