Gengistap Kópavogsbæjar á síðasta ári nam 523 milljónum króna, samkvæmt ársreikningi bæjarins. Alls var rekstrarafkoman neikvæð um 751 milljón króna.

Ársreikningur Kópavogsbæjar var birtur í dag. Þar kemur fram að niðurgreiðsla skulda bæjarins umfram lántökur var rúmlega 1.650 milljónir króna á síðasta ári. Langtímaáætlanir gera ráð fyrir að greitt verði um einn milljarður á ári af skuldum á næstu árum. Það markmið náðist á síðasta ári. Þá er stefnt að því að veltufé frá rekstri verði að minnsta kosti á bilinu 1,5 til 2 milljarðar á ári. Veltufé frá rekstri á síðasta ári var um 2,6 milljarðar.

Í tilkynningu til Kauphallar kemur fram að íbúum hélt áfram að fjölga á árinu. Þeir voru 31.139 í desember 2011, eða um 1,4% fleiri en ári áður.