*

laugardagur, 28. mars 2020
Innlent 15. október 2019 16:30

Kortavelta jókst lítillega

Velta innlendra greiðslukorta jókst um 0,5% að raunvirði milli ára í september.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Velta innlendra greiðslukorta jókst um 0,5% að raunvirði milli ára í september. Velta í verslunum hér á landi jókst um 0,3% milli ára miðað við fast verðlag og 1,5% í viðskiptum erlendis miðað við fast gengi. Til samanburðar var vöxturinn 10,3% erlendis og 3% í verslunum hér á landi í september í fyrra. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans.

Þar segir einnig að líkt og bent hafi verið á í fyrri Hagsjám sé verulega farið að hægja á kortaveltu Íslendinga. Á þriðja ársfjórðungi hafi kortaveltan aukist alls um 0,2% milli ára sem sé minnsti vöxtur síðan á fyrsta fjórðungi 2013.

Veltan þróist í takt við kaupmátt

„Kortavelta þróast nú í auknum mæli í takt við kaupmátt launa sem bendir til að landsmenn séu síður að eyða umfram efni. Kaupmáttur launa hefur aukist um 1,1% milli ára á fyrstu tveimur mánuðum þriðja ársfjórðungs sem er tæpu prósentustigi ofar aukningunni í kortaveltu á þriðja ársfjórðungi.

Um mitt árið 2013 fór kortavelta að aukast hraðar en kaupmáttur launa og munaði mestu á öðrum fjórðungi ársins 2017 þegar kortavelta jókst um 12% milli ára á sama tíma og kaupmáttur launa jókst um 5%. Gögn síðustu missera benda til þess að viðsnúningur sé að verða á þessari þróun þar sem fólk heldur í auknum mæli að sér höndum og eyðir ekki umfram breytingu kaupmáttar. Frá fjórða ársfjórðungi síðasta árs hefur aukning í kortaveltu verið minni en aukning í kaupmætti launa á samsvarandi tímabili," segir í Hagsjánni.

Um 20% af neyslunni erlendis frá

Þá segir jafnframt í Hagsjánni að samsetning kortaveltunnar hafi tekið ákveðnum breytingum síðustu ár þar sem aukinn hluti fari fram í gegnum viðskipti erlendis, bæði í gegnum fleiri utanlandsferðir Íslendinga og aukningar netverslunar. Það sem af er ári hafi um 20% veltunnar verið erlendis og var hlutfallið til samanburðar um 11% fyrir 5 árum síðan. Þó að hægt hafi á veltunni erlendis og vöxtur mælist mun minni nú en fyrir ári síðan hafi um 21% veltunnar í september komið erlendis frá sem sé svipað hlutfall og mældist í september fyrir ári síðan.