Hagnaður fjármálarisans Deutsche bank var helmingi minni á öðrum ársfjórðungi þessa árs en á sama tíma í fyrra. Skýringin er að sögn stjórnenda bankans minni tekjur af viðskiptum á fjármálamörkuðum og hærri skattgreiðslur. Auk þess hefur kostnaður vegna málaferla vegið þungt í bókum félagsins. Frá þessu greinir dagblaðið The Financial Times.

Hagnaður Deutsche bank nam 335 milljónum evra samanborið við 666 milljónir á sama tíma í fyrra. Tekjur hækkuðu um 2%, í 8,2 milljarða evra, en kostnaðurinn jókst mikið og greiddi bankinn 630 milljónir evra vegna málaferla. Þau málaferli sem um ræðir varða meðal annars fjárfesta sem fjárfestu í gegnum bankann í bandaríska fasteignamarkaðinum fyrir fjármálakreppuna 2008.