Þýskur útflutningur jókst í janúar með mesta hraða í sextán mánuði þrátt fyrir að gengi evrunnar sé í hæstu hæðum gagnvart helstu gjaldmiðlum heims. Samkvæmt þýskum yfirvöldum jókst útflutningur um 3,8% milli mánaða og er það mesta mánaðaraukning síðan í september árið 2006. Aukningin var níu prósent á ársgrundvelli og jókst útflutningur til ríkja utan Evrópu um 11,5%.

Aukningin á sér stað á sama tíma og bandaríska hagkerfið rambar á barmi samdráttar. Fram kemur í breska blaðinu Financial Times að ástandið þar vestra hefur ekki haft teljanleg áhrif á alþjóðlega eftirspurn eftir þýskum útflutningsvarningi. Þrátt fyrir að gengi evrunnar sé hátt virðist vöxtur í alþjóðahagkerfinu ráða mestu um stöðu þýsks útflutningsiðnaðar. Síðustu hagtölur sýna einnig aukningu í innflutningi til Þýskalands. Innflutningur jókst um 4,2% milli mánaða í janúar og bendir það til að slagkraftur sé að myndast í hagkerfinu.

Financial Times hefur eftir Dirk Schumacher, hagfræðingi hjá Goldman Sachs í Frankfurt, að þessar tölur sýni að þýska hagkerfið geti, að minnsta kosti ennþá, staðið af sér niðursveiflu í Bandaríkjunum og hið háa gengi evrunnar og að aukning á innflutningi bendi til vaxandi eftirspurnar í hagkerfinu. Á sama tíma berast fréttir um að iðnaðarframleiðsla hafi verið umfram væntingar í Frakklandi og á Ítalíu í janúar. Þykir þetta styrkja þá skoðun forráðamanna Evrópska seðlabankans að þrátt fyrir titringinn á fjármálamörkuðum þá séu grunnstoðir hagkerfa evrusvæðisins styrkar.

Bankinn hefur verið gagnrýndur fyrir peningamálastefnu sína að undanförnu en hann hefur haldið að sér höndum og ekki lækkað stýrivexti í kjölfar lánsfjárkreppunnar ólíkt því sem gerst hefur í Bandaríkjunum. Evrópski seðlabankinn hefur gefið verðbólguþrýstingi mun meiri gaum en sá bandaríski, en forráðamenn hans hafa lækkað vexti skarpt til þess að afstýra djúpstæðri niðursveiflu.