Síðastliðinn fimmtudag hófust verkallsaðgerðir Starfsgreinasambandsins. Í gær stóð verkfall fyrst um sinn yfir í hálfan sólarhring, frá hádegi til miðnættis. Eftir það taka við regluleg sólarhringsverkföll þar til ótímabundið verkfall hefst 26. maí. SGS hefur krafist allt að 70% launahækkunar fyrir ákveðna hópa launafólks, einkum í útflutningsgreinum.

Fyrir helgi losnuðu einnig 26 kjarasamningar, þar á meðal kjarasamningar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við ríki og Reykjavíkurborg. Hjúkrunarfræðingar hafa ekki viljað gefa kröfur sínar upp, en í samtali við Viðskiptablaðið fyrir um mánuði síðan sagði formaður félagsins, Ólafur G. Skúlason, að horft væri til kjarasamninga sem gerðir voru við lækna. Hann sagðist jafnframt ekki útiloka verkfallsaðgerðir. Upp úr viðræðum hjúkrunarfræðinga og samningarnefndar ríkisins slitnaði á mánudaginn án þess að nokkuð hafi þokast í samkomulagsátt á fundinum. Félagsmenn í BHM hafa verið í verkfalli, sumir allt frá 7. apríl. Þá samþykkti aðalfundur Eflingar, eins stærsta stéttarfélagsins í Flóabandalaginu, annars vegar að undirbúa og boða til verkfalla á almennum vinnumarkaði og hins vegar að veita allt að átta hundruð milljónir króna úr félagssjóði til vinnudeilusjóðs ef nauðsyn krefði vegna yfirvofandi verkfalla.

Eigið fé í vinnudeilusjóðnum er nú um 2,2 milljarðar króna. Jafnframt heimilaði aðalfundur Eflingar stjórninni að leita samstarfs við Flóafélögin, VSFK og Verkalýðsfélagið Hlíf undir samninganefnd Flóabandalagsins, sem og VR og Landssamband verslunarmanna um fyrirkomulag og tímasetningar verkfalla. Félagsmenn þessara félaga eru samtals 52.000 og því er ljóst að verkföllin hafa gífurleg áhrif ef til þeirra kemur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .