Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur vísað frá kæru Innnes efh. vegna þeirra ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins að ekki verði greint frá nafni eða nöfnum þeirra aðila sem komið hafa ábendingum á framfæri við eftirlitið um meint brot fyrirtækisins á samkeppnislögum.

Málavextir eru þeir helstir að í nóvember síðast liðnum óskaði Samkeppniseftirlitið eftir ábendingum frá þeim sem tölu sig hafa vitneskju um brot á samkeppnislögum. Í kjölfarið bárust stofnuninni upplýsingar frá einstaklingum og fyrirtækjum sem teknar voru til frekari skoðunar.

Í framhaldi af því gerði Samkeppniseftirlitið húsleit hjá Innnes og fleiri fyrirtækjum. Rannsókn stofnunarinnar er á frumstigi en beinist m.a. að ætluðum brotum á samkeppnislögum, það er að segja hugsanlegu ólögmætu samráði samsöluaðila og birgja. Seinni hluta nóvembermánaðar krafðist Innnes þess að fá afrit af beiðni Samkeppniseftirlitsins um húsleit til Héraðsdóms Reykjavíkur auk allra gagna sem þar höfðu verið lögð fram.

Einnig var óskað eftir upplýsingum um ábendingar sem borist höfðu eftirlitinu, þar með talin nöfn þeirra aðila sem komið höfðu með ábendingarnar. Samkeppniseftirlitið sendi í byrjun desember Innnes afrit af kröfu um húsleit og fylgigögnum, en hafði kröfu um að nöfnin yrðu afhent.