Erlendir kröfuhafar fallinna banka og fjármálafyrirtækja óttast að Seðlabankinn muni beita gjaldeyrishöftunum fyrir sig og banni þeim að flytja gjaldeyri úr landi. Af þeim sökum hafa þeir í meiri mæli en áður sett inn sérstakt ákvæði um fyrirframgreiðslu skulda í lánasamninga til að hraða útgreiðslu gjaldeyris á grundvelli undanþága frá gjaldeyrishöftum. Þá hefur hvati myndast í þeirra röðum til að selja krónueignir hratt í skiptum fyrir gjaldeyri.

Í Morgunblaðinu í dag segir að Seðlabankinn hafi ekki veitt neinar stefnumarkandi undanþágur á grundvelli fyrirframgreiðsluákvæðis þegar lausafjárstaða fyrirtækis fer yfir ákveðin mörk, fjársópsákvæði (e. cash sweep), enda eru samningsbundnar afborganir af skuldabréfi undanþegnar fjármagnshöftum. Hann getur hins vegar gert það svo lengi sem greiðslan raski ekki stöðugleika á gjaldeyrismarkaði.

Í blaðinu er rifjað upp að Seðlabankinn hafi stöðvað greiðslu ALMC, móðurfélags Straums, á 10,15 milljóna evra láni sem var á gjalddaga í nóvember. Bankinn setti ALMC jafnframt þau skilyrði að félagið selji eignir upp á 25,6 milljónir evra í skiptum fyrir krónur. Blaðið segir jafnframt að þegar ALMC hafi ekki verið heimilt að skipta krónum í evrur til að greiða lánið á sínum tíma þá hafi átt að nota evrur í sama tilgangi. Seðlabankinn hafnaði því sömuleiðis. Morgunblaðið hefur eftir heimildum sínum það til marks um það hversu alvarlega augum Seðlabankinn líti málið.