Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra , segir í viðtali í Morgunblaðinu í dag að stór liður í afnámi gjaldeyrishafta sé krónuútboð upp á 230 milljarða króna, sem að sé stefnt að fari fram á fyrri hluta þessa árs. Í dag liggi ekkert fyrir hver þátttakan verði í útboðinu.

Bjarni segir að í smíðum sé frumvarp í fjármálaráðuneytinu sem hafi það að markmiði að styðja við og undirbúa útboð sem hefur verið boðað til á fyrri hluta þessa árs. Þegar frumvarpið er komið fram verður væntanlega tilkynnt um dagsetningu á útboðinu og skilmála þess.

„Síðan fer útboðið fram og þá munu menn annað hvort fá lausn sinna mála eða sitja uppi með afleiðingar þess að taka ekki þátt, en um það verður fjallað sérstaklega í því frumvarpi sem nú er í smíðum. Þar má gera ráð fyrir því að menn fari aftast í biðröðina í haftalosun, sem taka ekki þátt“ sagði ráðherra í viðtalinu.

Ráðherrann segir jafnframt að þegar útboðinu ljúki verði komin niðurstaða í þann þátt haftaafnásmsins sem að langmestu leyti snúi að aflandskrónueigendum. Skömmu eftir að niðurstaðan er fengin í útboðinu, verði tekin mjög stór skref til að létta höftum af raunhagkerfinu.