*

þriðjudagur, 28. janúar 2020
Innlent 14. desember 2019 16:01

Lægri vextir skilyrði fyrir grænum bréfum

Framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga segist ekki munu selja græn skuldabréf á sömu kjörum og hefðbundin.

Júlíus Þór Halldórsson
Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga.
Haraldur Guðjónsson

Lánasjóður sveitarfélaga hefur fengið vottun á umgjörð félagsins í þeim tilgangi að gefa út græn skuldabréf, til að fjármagna umhverfisvæn verkefni sveitarfélaga. Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri lánasjóðsins, segir að umfang grænnar útgáfu sjóðsins gæti orðið um 6 milljarðar króna á næsta ári.

Það velti þó á því hvort og þá hversu mikið betri kjör fáist á grænum bréfum en þeim hefðbundnu, en Óttar segir það algert skilyrði fyrir slíkri útgáfu sjóðsins að þau skili honum bættum kjörum. „Ef við fáum ekki lægri vexti þá er þetta alveg tilgangslaust. Lánasjóðurinn hefur ekkert hlutverk annað en að miðla peningum.“

Víðtækara hlutverk en að ávaxta peninga
Hann segir fjárfestingu í grænum skuldabréfum, jafnvel með lægri vöxtum en hefðbundin bréf, falla vel að hlutverki lífeyrissjóðanna. „Ég sé ekki betur en að það sé afar rökrétt fyrir lífeyrissjóðina að huga að þessu. Hlutverk lífeyrissjóða er talsvert víðtækara en að búa til nafnávöxtun milli ársfjórðunga. Þeir eru hugsaðir til framtíðar fyrir ellilífeyrisþega. Margir sjóðfélagar munu ekki fara á eftirlaun fyrr en eftir hátt í hálfa öld. Með því að fjárfesta frekar í grænum bréfum og stuðla þar með að frekari fráveitu, verður umhverfið betra í framtíðinni þegar þessir sjóðfélagar – sem í dag eru ungt fólk – fara að þiggja greiðslur úr sínum lífeyrissjóð.“

Ummæli Óttars ríma ágætlega við ummæli Hörpu Jónsdóttur – sem tók við sem framkvæmdastjóri LSR nú í sumar – í nýlegu viðtali við Viðskiptablaðið. Þar sagði hún verkefni sjóðsins næstu ára vera að framfylgja stefnu um samfélagslega ábyrgð í fjárfestingum. Ekki dygði fyrir komandi kynslóðir að fá greiddan lífeyri ef þau gætu ekki andað að sér loftinu.

Snerta ekki lesti með löngu priki
Óttar bendir á að fjárfestingastefna lífeyrissjóða feli nú þegar í sér siðferðislegt mat á tilvonandi fjárfestingum og samfélagslegum áhrifum þeirra. „Hvers vegna eru lífeyrissjóðirnir ekki að fjárfesta í fjárhættuspilum? Eða kannabisframleiðslu? Eða vopnaframleiðslu? Þeir snerta þetta ekki með löngu priki, og það virðast allir vera sammála því að það sé frábært. Það eru til sérstakir sjóðir sem sérhæfa sig í svona fjárfestingum, svokallaðir lastasjóðir (e. vice investing). Þeir skila að meðaltali betri ávöxtun en sambærilegir en almennari sjóðir á sama markaðssvæði, og það er bara eðlilegt, vegna þess að fólk vill ekki þessa hluti. Það er fleira sem skiptir máli í lífinu en ávöxtun.“

Nánar er rætt við Óttar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.