Sú lækkun olíuverðs sem hefur orðið undanfarið ár virðist hafa haft lítil áhrif á heildsöluverð raforku í Evrópu, enda eru einungis örfá prósent af raforku Evrópu framleidd með brennslu olíu. Olíuverðslækkunin hefur hins vegar haft margvísleg önnur áhrif á efnahagslíf margra landa, þar á meðal Ísland.

Nokkur umræða hefur skapast um áhrif lækkunar olíuverðs á íslensku olíufélögin. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Valgeir Baldursson, forstjóri Skeljungs, að lægra olíuverð þýði að fjárbinding félagsins minnkar. Það minnki fjármögnunarkostnað félagsins. Málið sé þó ekki alveg svo einfalt.

„Lækkandi olíuverð hefur ekki endilega alltaf góð áhrif í rekstri, þar sem að við seljum vöruna á meðalverði mánaðarins. Ef við eigum birgðir frá fyrri mánuði í markaði sem lækkar stöðugt, þá ertu með dýrari birgðir sem þú ert að greiða niður,“ útskýrir hann. Til lengri tíma litið sé hins vegar jákvætt að innkaupaverð olíu sé sem lægst og stöðugast.

Nánar er fjallað um málið í Orku & iðnaði, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .