Þeir sem lánuðu til byggingar Norðurturnsins við Smáralind í Kópavogi fengu rétt tæplega 22% greitt upp í kröfur sínar. Félagið var úrskurðað gjaldþrota 3. september árið 2010 og lauk skiptum þrotabúsins 16. desember síðastliðinn. Í Lögbirtingablaðinu í dag kemur fram að lýstar kröfur námu 5.470.092.996 krónur og fengust 1,2 milljarðar króna upp í kröfur. Þá fékkst ekkert upp í almennar kröfur upp á rétt rúma 1,5 milljarða króna.

Verktakafyrirtækið BYGG, Byggingafélag Gunnars og Gylfa, sá um byggingu Norðurturnsins en eignarhald lóðar og framkvæmdin inni í félaginu Norðurturninn ehf. FL Group átti 44% hlut í Norðurturninum en Saxbygg afganginn. Í kjölfar þess að farið var fram á greiðslustöðvun Norðurturnsins síðla árs 2008 stöðvuðust framkvæmdir við byggingu Norðurturnsins. Helstu kröfuhafar Norðurturnsins ehf voru Glitnir, Íslandsbanki, Tryggingamiðstöðin, BYGG, Lífeyrissjóður verkfræðinga og önnur félög. Þau stofnuðu féalgið Nýr Norðurturn hf utan um verkið og héldu framkvæmdum áfram.

Um mitt ár var samið um að Baðhúsið flytji starfsemi sína í Norðurturninn. Linda Pétursdóttir sagði í samtali við VB.is gert ráð fyrir að af flutningnum geti orðið nú um áramótin.