ALM Fjármálaráðgjöf hf. er nýtt fyrirtæki á fjármálamarkaði sem sérhæfir sig i eigna- og skuldastýringu og greiningu á helstu fjármálamörkuðum. Meðal þeirrar þjónustu sem ALM Fjármálaráðgjöf veitir er ráðgjöf um skuldastýringu þar sem sérstök áhersla er lögð á myntsamsetningu skulda í ljósi þróunar og horfa á gjaldeyris-og vaxtamörkuðum að því er segir í tilkynningu.

Fyrirtækið veitir einnig ráðgjöf um öflun fjármagns á innlendum skuldabréfamarkaði og þá stendur fyrirtækjum og opinberum aðilum til boða ráðgjöf um stefnumótun í áhættustýringu eigna og skulda og hvernig innleiða má hana sem hluta af reglulegri starfsemi.

Í tilkynningu kemur fram að markhópur ALM Fjármálaráðgjafar eru fyrirtæki, fagfjárfestar og opinberir aðilar og þegar fram líða stundir verður einnig boðið upp á ráðgjöf til einstaklinga. Sótt verður um leyfi Fjármálaeftirlitsins til að starfrækja verðbréfafyrirtæki skv. lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um verðbréfaviðskipti og tengda þjónustustarfsemi.

,,Eftir hrun bankakerfisins má segja að íslenskt fjármálalíf sé aftir á byrjunarreit og að ákveðin óvissa ríki um framtíðarskipulag þess.  Sterk krafa er um sjálfstæða og óháða ráðgjöf sem skapar grundvöll fyrir tilfærslu á þjónustu sem hingað til hefur almennt verið flokkuð sem hluti af starfsemi fjárfestingabanka.  ALM Fjármálaráðgjöf ætlar sér hlutverk á innlendum fjármálamarkaði í þeirri endurskipulagningu sem framundan er.  Fyrirtækið leggur áherslu á gagnsæi og óháða ráðgjöf sem fyrirbyggir hagsmunaárekstra," segir í tilkynningu.

Að ALM Fjármálaráðgjöf standa einstaklingar með reynslu og þekkingu á fjármálamörkuðum bæði innanlands og á alþjóðlegum vettvangi. Stofnendur og aðaleigendur ALM Fjármálaráðgjafar hf. eru Arnar Jónsson, sem jafnframt er framkvæmdastjóri félagsins, Hjörtur H. Jónsson og Ísak S. Hauksson en þeir störfuðu allir um árabil hjá Landsbanka Íslands hf.  Aðsetur ALM Fjármálaráðgjafar er að Skúlatúni 2 í Reykjavík.