Hagfræðideild Landsbankans gerir ráð fyrir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,4% í október en gangi spáin eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 8,9%.

Þetta kemur fram í Hagsjá, vefriti hagfræðideildarinnar en áður hafa IFS Greining og Greining Íslandsbanka spáð 0,5% hækkun á vísitölu neysluverðs eða 9% verðbólgu í október.

Hagfræðideildin segir að í október megi búast við því að verð á mat- og drykkjarvöru hækki nokkuð vegna áhrifa af vörugjaldahækkuninni í síðasta mánuði. Aftur á móti bendi flest til þess að fasteignaverð sé ennþá á niðurleið, þrátt fyrir fjörkipp í síðasta mánuði.

Hækkun vörugjalda hefur áhrif í mánuðinum

„Hækkun vörugjalda á ýmsa matvöru tók gildi þann 1. september, og við eigum von á að breytingu vörugjaldanna verði að mestu leyti velt hratt út í verðlagið,“ segir í Hagsjá.

„Hluti hækkananna kom fram í september en þá hækkuðu mat- og drykkjarvörur um að meðaltali 1,6% frá fyrri mánuði. Þegar sundurliðun hækkunarinnar er skoðuð kemur glöggt í ljós að hækkun vörugjaldanna hefur þar mikið að segja en gosdrykkir hækkuðu að jafnaði um 7,4% milli mánaða, kökur og sætabrauð um tæplega 8% og sælgæti og ís um u.þ.b. 4%.“

Þá segir Hagfræðideildin að þrátt fyrir þessa hækkun í september sé líklegt að áhrifin séu ekki að fullu komin fram og því megi einnig búast við nokkurri hækkun á matvöru nú í októbermælingunni. Í spá Hagfræðideildarinnar er gert ráð fyrir 1-1,5% hækkun matvöru milli september og október.

Spá 6% verðbólgu í lok árs

Þá gerir Hagfræðideildin jafnframt ráð fyrir því að verðbólgan dvíni hratt það sem eftir lifi árs.

„Spá okkar byggir sem fyrr á áframhaldandi lækkun fasteignaverðs og að flestir aðrir liðir vísitölunnar hækki aðeins hóflega enda er eftirspurn enn takmörkuð auk þess sem gengi krónunnar hafi ekki veikst nema lítið eitt frá því í vor,“ segir í Hagsjá.

„Einnig detta á næstunni út úr mælingunni miklar verðhækkanir frá því í lok síðasta árs en það veldur því að tólf mánaða verðbólga fellur enn hraðar en ella. Að því gefnu að gengi krónunnar haldist nokkuð stöðugt á næstunni má áætla að 12 mánaða verðbólga gæti verið komin í námunda við 6% í lok árs.“

Sjá nánar í Hagsjá.