Landsbankinn hefur falið þýska fjárfestingabankanum að selja 19,8% eignarhlut sinn í sænska fjárfestingabankanum D. Carnegie & Co., segir í fréttatilkynningu.

Vangaveltur eru á erlendum fjármálamörkuðum um að Landsbankinn hafi ákveðið að selja hlutinn vegna titrings á íslenskum fjármálamarkaði.

Greiningardeild Kaupþings banka telur ekki ólíklegt að Landsbankinn hafi ætlað að reyna taka Carnegie yfir en vegna markaðsaðstæðna sé það ekki lengur fýsilegur kostur, þá sérstaklega vegna fjármögnunarmarkaða erlendis.

Landsbankinn á nú 13.643.280 hluti í Carnegie. Bankinn eignaðist hlutabréfin í tengslum við samruna Landsbankans við Burðarás, sem tilkynntur var þann 2. ágúst, 2005.

?Fyrirhuguð sala bréfanna er í samræmi við stefnu Landsbankans um virka stýringu á hlutabréfastöðum og áherslu á samþættingu alþjóðlegrar starfsemi bankans,"

Hlutabréfin verða seld til alþjóðlegra fagfjárfesta með tilboðsfyrirkomulagi (e. accelerated bookbuilding offering).

Yfirumsjón með sölunni er í höndum Deutsche Bank (e. book runner) í samvinnu við Carnegie (e. sales agent). Salan er háð því skilyrði að ásættanlegt verð fáist fyrir hlutina að mati Landsbankans.