Greiningardeild Landsbankans gerir ráð fyrir að stýrivextir hafi náð hámarki og lækki hratt á næsta ári.

?Þar ræður mestu hröð lækkun verðbólgunnar, sem að óbreyttum stýrivöxtum leiðir til stóraukins aðhaldsstigs peningastefnunnar. Þetta er meðal þess sem fram kemur í hagspá Greiningardeildar fyrir árin 2006-2015 sem kom út í síðustu viku.

Miðað við verðbólguspá okkar mundu 14% stýrivextir, eins og þeir eru nú, jafngilda um 11% raunstýrivöxtum á næsta ári, en til samanburðar voru raunstýrivextir neikvæðir á öðrum fjórðungi ársins og 7% á þeim þriðja," segir greiningardeildin.

Áframhaldandi mikið peningalegt aðhald

?Við teljum óhugsandi að Seðlabankinn stefni að svo háum raunstýrivöxtum og teljum líklegt að stýrivextir verði lækkaðir strax í upphafi næsta árs. Við reiknum með að stýrivextir verði lækkaðir um samtals 5,50 prósentur til áramóta og verði þá komnir niður í 8,50%.

Miðað við verðbólguspá okkar felur þetta í sér 6-7% raunstýrivexti á síðasta fjórðungi næsta árs. Þetta þýðir áframhaldandi mikið peningalegt aðhald því peningastjórnin telst vera hlutlaus þegar raunstýrivextir eru á bilinu 3,5-4,5%.

Skammtímavaxtamunur við útlönd lækkar úr um 10% nú í 3,5% í árslok 2007, samkvæmt spá okkar, og er þetta heldur meiri vaxtamunur en árið 2003," segir greiningardeildin.