Landsbankinn var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag sýknaður af kröfu Vestmannaeyjabæjar, Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja og Vinnslustöðvarinnar hf. (VSV). Ágreiningur málsaðila snerist um það hvað teldist hæfilegt endurgjald fyrir stofnfjárhluti við yfirtöku Landsbankans á öllum stofnfjárhlutum Sparisjóðs Vestmannaeyja (SPV) vegna samruna bankans og sjóðsins árið 2015.

Samanlögð dómkrafa hljóðaði upp á ríflega 44 milljónir króna auk dráttarvaxta frá ágústlokum 2018. Sveitarfélagið vildi 15,4 miljónir í sinn hlut, lífeyrissjóðurinn 21,6 milljónir og útgerðin tæplega 7,6 milljónir.

Í mars 2015 óskaði SPV eftir fresti við FME til að skila ársreikningi vegna ársins 2014. Virðisrýrnun á útlánasafni hafði verið mikil og eigið fé bankans uppurið. Slæm staða sjóðsins spurðir út og var fjallað um málið í fjölmiðlum. Í kjölfarið tóku innlánseigendur út ríflega 700 milljónir króna af reikningum sínum í bankanum.

Sjá einnig: Vilja að Landsbankinn taki sparisjóðinn yfir

Síðar í mars skilaði SPV ársreikningi þar sem kom fram að tap hefði numið tæpum milljarði og bókfært eigið fé væri jákvætt um 98 milljónir. Eiginfjárhlutfall var hins vegar neikvætt um 1,1% vegna frádráttar eignarhluta í fjármálafyrirtækjum og skatteign frá bókfærðu fé. Síðar sama dag, 27. mars 2019, gerði Landsbankinn tilboð til stjórnar SPV þar sem lagt var til að sjóðurinn myndi sameinast bankanum.

Samkvæmt tilboðinu var stofnfé SPV metið á 332 milljónir króna en það var 283 milljónum hærra en bjartsýnt mat Landsbankans á stöðu eigin fjár, 753 milljónum hærra en grunnvirðismynd gerði ráð fyrir og 1.125 milljónum hærra en svartsýnt mat á stöðu SPV. Var tilboðinu tekið degi síðar og ráðahagurinn síðan blessaður af FME.

Í maí 2015 sendu Vestmanneyjabær og VSV Landsbankanum bréf þar sem efasemdir voru hafðar uppi um mat á eignum og skuldbindingum SPV. Í millitíðinni hafði KPMG unnið skýrslu um mat á eigin fé SPV en niðurstaða þess var að ekki kæmi til leiðréttingar á virði stofnfjárhluta SPV. Var þess krafist að málið yrði skýrt frekar og hvort stofnfjáreigendur gætu tilnefnt aðila til að endurmeta mat KPMG. Nokkur samskipti áttu sér stað milli aðila og FME eftir þetta án þessa að sættir næðust.

Eðlilegt endurgjald hærra samkvæmt mati matsmanna

Sumarið 2016 voru dómkvaddir tveir matsmenn, endurskoðandinn Árni Tómasson og hagfræðidoktorinn Ásgeir Jónsson, síðar seðlabankastjóri, til að meta ákveðin atriði þessu tengt. Matsgerð þeirra lá fyrir í júní 2018. Samkvæmt henni nam verðmæti eigin fjár SPV í ársbyrjun 483 milljónum króna eða 151 milljón meir en endurgjald Landsbankans samkvæmt samkomulaginu. Dómkrafa stefnenda tók mið af þeim mismuni en auk þess var gerð krafa um greiðslu kostnaðar við gerð matsins.

Sjá einnig: Ríkið allt umlykjandi í sparisjóðsmálinu

Stefnendur málsins töldu að samkomulag um endurgjald hafi verið ósanngjarnt og að Landsbankinn hefði auðgast með óréttmætum hætti á þeirra kostnað. Umrædd matsgerð sýni fram á að þeir hafi verið hlunnfarnir þegar bankinn tók yfir SPV. Í matsgerðinni er þess einnig getið að ekki sé ljóst hvort matsmenn hafi haft allar nauðsynlegar upplýsingar við gerð þess. Þá hafi fundargerð bankaráðs Landsbankans sýnt fram á að bankinn hafi talið að verðmæti SPV gæti verið töluvert hærra en endurgjaldið. Var þess krafist að endurgjaldið yrði hækkað til samræmis við matsgerðina á grundvelli hliðrunarreglu samningalaganna.

Tímapressa hafði mikil áhrif

Í niðurstöðukafla dómsins er þess getið að aðstæður þær sem uppi voru hafi verið mjög knýjandi og sökum knapps tímaramma hafi Landsbankanum ekki gefist tími á að framkvæma áræðanleikakönnun né að semja um ábyrgðaryfirlýsingar gagnvart stofnfjáreigendum.

„Við mat á því hvort samkomulagið geti talist haldið slíkum ágöllum að ógildi geti varðað [...] verður sem fyrr að líta til þess að um tvö fjármálafyrirtæki var að ræða og að stjórnarmenn sparisjóðsins rituðu undir samkomulagið [...]. Við mat á ætluðu ójafnræði aðila getur dómurinn, í ljósi þeirra knöppu tímafresta sem unnið var eftir, ekki fallist á það með stefnendum að [Landsbankinn] hafi búið yfir gleggri upplýsingum um SPV en fyrirsvarsmenn sjóðsins gerðu á þeim tíma,“ segir í dóminum.

Gögn frá árinu 2015 bendi til þess að SPV hafi staðið frammi fyrir því að renna saman við Landsbankann eða fara ellegar í þrot. Við eftir á skoðun á ákvörðuninni og samkomulaginu verði að miða við það að stjórnir beggja aðila beri ábyrgð á því sem ákveðið var og um var samið. Var því hafnað af þeim sökum að samkomulagið hafi verið ósanngjarnt eða að Landsbankinn hefði auðgast á kostnað stefnenda með óréttmætum hætti.

„Hefðu stefnendur viljað forða sjóðnum frá formlegum aðgerðum FME mátti þeim vera ljóst að þörf var á snörum viðbrögðum, sem augljóslega hefðu getað falist í því að leggja [SPV] til nýtt fé. Svo sem gögn málsins bera með sér tókst það ekki. Af þeim sökum þykir ekki ósanngjarnt að stefnendur beri hallann af því nú, þegar þeir sjálfir krefjast endurmats á atvikum sem leiddu til samrunans,“ segir þar enn fremur.

Landsbankinn var því sýknaður af dómkröfum. Því til viðbótar var stefnendum gert að greiða bankanum 6 milljónir króna í málskostnað en málarekstur hafði reynst tímafrekur og útheimt mikla vinnu fyrir aðila þess.