Aðalfundur í Teymi er haldinn í dag í kjölfar endurreisnar eftir nauðasamninga. Þar mun NBI hf. (nýi Landsbankinn) taka formlega við meirihlutaeign í félaginu. Í forsendum nauðasamninga kom fram að skuldir samstæðunnar voru 50 milljarðar króna og eigið fé orðið neikvætt sem nam -25.112 milljónum króna. Hafði eigið fé þá hrapað úr 8.296 milljónum króna samkvæmt rekstrarreikningi 2007, eða um rúma 33 milljarða króna.

Niðurstaða nauðasamninga var að umbreyta hluta skulda í hlutafé upp á 6.226 milljóna króna sem skráð er á genginu 5. Er NBI hf. (nýi Landsbankinn) þar með langstærstan hlut, eða 62,16%. Eignarhlutur NBI í samstæðunni verður færður undir Vestia dótturfélag NBI að sögn Steinþórs Baldurssonar, framkvæmdastjóra Vestia. Ekki hefur verið greint frá neinum breytingum á lykilstöðum í Teymi í kjölfar nauðasamninga, en Árni Pétur Jónsson er forstjóri félagsins.

Teymi hefur í sumar bæði verið vítt og sektað af Kauphöllinni og Samkeppniseftirlitinu. Þá skyldaði Samkeppniseftirlitið Teymi í júlí sl. til að selja sem fyrst eignarhlut sinn í Tali vegna samkeppnisbrota. Eru fjársterkir innlendir og erlendir fjárfestar sagðir hafa sýnt 51 prósents eignarhlut Teymis í Tali mikinn áhuga þó söluferli sé ekki hafið.

Nýi Landsbankinn (NBI) fer nú með 82 prósenta eignarhlut í Tali, en bankinn tók m.a. yfir 32% hlut Fjallaskarðs í Tali, en það félag hét áður Capital Plaza ehf. og var í eigu Jóhanns Óla Guðmundssonar.

Að því er fram kemur í MBL í dag situr Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður fyrir hönd NBI í nýrri stjórn Teymis. Vekur það athygli í ljósi þess að hann var lögmaður Teymis þegar samstæðan fór í nauðasamninga og á meðan deilur meðal eigenda Tals stóðu sem hæst fyrr á þessu ári.