Samkvæmt nýjum samningi munu öryggisverðir Securitas gæta sjúklinga á Landspítala. Þeir fá  viðeigandi þjálfun og vottun frá LSH áður en þeir hefja störf.

Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu.

Þar kemur fram að nýverið skrifuðu forsvarsmenn Landspítala (LSH) og Securitas undir þjónustusamning um yfirsetur yfir sjúklingum á spítalanum. Öryggisverðir Securitas munu gæta þeirra  sjúklinga sem vegna aðstæðna þarfnast stöðugs eftirlits. Securitas hóf þessa þjónustu við LSH í forföllum starfsfólks sjúkrahússins árið 2006 og hefur eftirspurnin aukist síðan. Því var komin tími til, að mati beggja aðila, að ganga til samninga.

„Í mörgum tilfellum getur reynst nauðsynlegt að gæta skjólstæðinga LSH, sem vegna veikinda eða slyss þurfa á stöðugri aðgæslu að halda. Hingað til hafa starfsmenn sjúkrahússins, ásamt  nemum í heilbrigðisfræðum og fleirum séð um þetta verkefni. Tímafrekt og erfitt hefur verið að fá mannskap þar sem útkall til yfirsetu er ávallt með litlum fyrirvara. Hagræðið af þessum samningi felst því ekki síst í því að nú er hægt að ganga að fólki vísu til þessara starfa,“ segir í tilkynningunni.

„Við hjá Securitas erum að vonum ákaflega stolt af því trausti sem fyrirtækinu er sýnt með þessum samningi,“ segir Trausti Harðarson, forstjóri Securitas.

„Yfirseta getur verið vandasamt og krefjandi starf og munum við strax í næstu viku senda 12 öryggisverði í sér þjálfun til þess að undirbúa þá fyrir störfin. Síðar í sumar og í haust munu svo fleiri starfsmenn sækja þjálfun enda þarf þjálfað viðbragðslið alltaf að vera til staðar. Þeir sem sitja námskeiðin verða vottaðir af LSH. Við höfum sinnt þessum yfirsetum í forföllum í tvö ár og reynslan og þekkingin því orðin mikil. Við fögnum því þessu samkomulagi og vonum að það verði til hagsbóta fyrir alla aðila.“